Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Ferðasaga í sveitakeppni drengja 16 ára og yngri.

Þetta byrjaði allt saman áður en að lagt var af stað með því að sveitin var valin. Við ætluðum að fara með tvær fjögurra manna sveitir en breyttar reglur GSÍ gerðu það að verkum að við náðum ekki að senda nema eina sveit og þvi voru 6 valdir til farainnar. Að þessu sinni var sveitakeppning haldin á Flúðum. Það voru þeir Þorbergur Ólafsson ( Tobbi ), Ingvi Þór Óskarsson, Arnar Geir Hjartarson, Jónas Rafn Sigurjónsson, Ingi Pétursson og Þröstur Kárason. Ingvi lagðist hins vegar í flensu og á mánudaginn og var ekki búinn að ná sér þegar að lögðum í hann á fimmtudagsmorgninum og var það sannarlega skarð fyrir skyldi. Sveitin var því skipuð 5 leikmönnum. Mæting var uppi á golfvelli kl. 8 um morguninn og fóru ég og Pétur Friðjónsson á bílum með hópinn. Ólafur Gylfason þjálfari ætlaði síðan að hitta okkur í Reykjavík og slást í för með okkur. Við áttum síðan rástíma á Flúðum kl.14.30. Allt gekk þetta eftir og okkar fyrsta verk í Reykjavík, þegar við vorum búnir að borða á KFC, var að sækja peysurnar okkar í merkingu í Margt smátt og síðan var ferðinni heitið í Nevada Bob þar sem að við mæltum okkur mót við Óla þjálfara. Það fyrsta sem að við sáum við innganginn var golfsettið hans Óla og farangurinn hans. Við náðum honum síðan út úr búðinni og öll verslun var í lágmarki hjá drengjunum
Þá var bara að bruna á Flúðir til að ná rástíma og það gekk að sjálfsögðu eftir. Skipt var í tvö holl og ég og Óli spiluðum líka með strákunum. Völlurinn á Flúðum er mjög fallegur völlur og mesti skógarvöllur sem að flestir höfðu spilað á. Meðfram brautunum liggja tré jafnvel alla leið að flöt og skýla fyrir vindi, hins vegar eru þau ekki mjög há þannig að ef að slegið var yfir hæð trjáanna þá fór vindurinn að hafa veruleg áhrif og flesta dagana var vindurinn töluvert sterkur. Eftir æfingahringinn var flestum ljóst að ekki dugði að rífa upp driverinn og láta vaða á öllum brautum !!! en með skynsemi var líka hægt að ná ágætis skori ef að hlutirnir féllu með okkur.
Eftir æfingahringinn var snæddur kvöldverður í golfskálanum, þar sem að við borðuðum okkar máltíðir og morgunverð að meðan keppninni stóð. Liðstjórafundur var síðan haldinn á um 8 leytið þar sem að farið var yfir praktísk mál og tilkynnt var sveitin sem að keppa átti í höggleiknum á föstudeginum. Í hverri umferð kepptu bara 4 þannig að ljóst var að alltaf hvíldi 1 leikmaður. Þeir sem að kepptu í höggleiknum voru Tobbi, Arnar, Jónas og Þröstur.
Síðan var haldið á gististaðinn okkar sem að var í 10 km fjarlægð frá golfvellinum. Við vorum svo heppnir að fá gistingu á Syðra-Langholti hjá þeim heiðurshjónum Hrafnhildi Jónsdóttur ( dóttur Jóns í Ketu á Sauðárkróki ) og Jóhannesi Sigmundssyni. Þar fengum við til afnota alla efri hæðina hjá þeim og fór svo sannarlega vel um okkur þar. Jóhannes var líka búinn að láta renna í heita pottinn þegar við mættum og skelltu strákarnir sér í pottinn þegar búið var að raða sér niður í herbergin. Eftr stuttan liðsfund fóru menn í háttinn, þreyttir en ánægðir eftir langan dag. Mæting var á teig kl. 9.24 á föstudeginum.

Þá rann föstudagurinn upp og mikil spenna var í hópnum. Hlýtt var í veðri en nokkuð mikill vindur.
Arnar Geir spilaði best af okkar mönnum eða á 88 höggum, spilaði nokkuð jafnt golf allan tímann. Tobbi kom inn á 92 höggum og að jafna var hringurinn hjá honum háspenna, hann fékk m.a. örn á 15 holu sem er par 5 og setti niður 150 metra högg, sannarlega glæsilegt hjá honum. Jónas lék á 99 höggum og afrekaði það m.a. að týna 8 boltum á hringnum, sem sýnir að þess á milli lék hann flott golf. Þessir þrír töldu því inn í heildarkeppnina. Þröstur náði sér hins vegar ekki alveg á strik og lék á 108 höggum, en hann spilaði mun betur síðar í keppninni. Niðurstaðan varð því sú að eftir höggleikinn þá var sveitin í 14 sæti af 20 sveitum, alveg viðunandi árangur m.v. aldur og reynslu þorra sveitarinnar. Þegar að þessum hring lauk þá skelltum við okkur í sund á Flúðum og borðuðum síðan kvöldmat í golfskálanum ásamt fleiri sveitum. Að því búnu var haldið heim í Syðra Langholt í gistinguna. Drengirnir fóru snemma í háttinn þar sem að erfiður dagur var framundan, en eldra genginu var boðið í kvöldkaffi á neðri hæðinni - sannkallað veisluborð. Í hópinn hafði Margrét Helgadóttir bæst – mamma hans Þrastar. Var því spjallað fram eftir kvöldi með Sísu og Jóa og rifjaðar upp sögur úr Skagafirðinum.

Þá var komið að laugardeginum, strembinn dagur þar sem að tveir leikir fóru fram. Fyrst var leikið við GKJ-B ( Mosfellsbær ) og síðan við GV-A ( Vestmannaeyjar ).
Fyrri leikurinn gegn GKJ-B tapaðist 2-1. Tobbi vann sinn leik á 18. holu 1/0, Arnar Geir tapaði sínum leik á 18. holu 1/0 og síðan tapaðist fjórmenningurinn hjá Jónasi og Inga 4/3. Þetta var hörkuviðureign eins og úrslitin gefa til kynna og ef að nokkur pútt hefðu dottið hjá okkur mönnum hefðum við landað þarna sigri. Fleiri foreldrar bættust í hópinn til að fylgjast með strákunum, Sigurjón og María, foreldrar Jónasar og síðan komu Óli Þorbergs, Valborg og Arnar Ó. til að fylgjast með Tobba og auðvitað öllum hinum líka. Virkilega gaman að fá stuðninginn.
Að loknum þessum leik var borðaður hádegismatur og byrjað að undirbúa sig fyrir seinni leik dagsins sem var við A sveit Vestmannaeyinga. Þar voru á ferðinni feykigóðir kylfingar með mun lægri forgjöf heldur en okkar menn. Það kom líka á daginn að við ramman reip var að draga. Þorbergur og Arnar Geir töpuðu sínum viðureignum 4/3 en í fjórmenningnum sem að Ingi og Þröstur spiluðu, töpuðum við 3/2. Niðurstaðan var því 3-0 sigur hjá GV-A.
Þetta var því erfiður dagur hjá okkur en mikil reynsla fyrir strákana sem að á örugglega eftir að nýtast þeim í framtíðinni.
Þegar við vorum búin að borða kvöldmat í golfskálanum þá var farið heim í gistingu, heiti potturinn beið strákanna og kaffihlaðborðið fyrir hina eldri .
Það fóru hins vegar allir snemma í háttinn enda var þetta erfiður dagur, þó að enn og aftur höfum við verið heppin með veður, þ.e. hlýtt var í veðri en dálítill vindur.

Svo rann upp lokadagurinn - sunnudagur . Vaknað var snemma til að tæma gististaðinn okkar, þar hafði svo sannarlega farið vel um okkur. Við áttum að spila við GL-B ( Akranes ) um morguninn og að loknum þeim leik kæmi síðan í ljós um hvaða sæti við spiluðum og við hverja.
Sem fyrri spiluðu Þorbergur og Arnar tvímenninginn og Ingi og Jónas spiluðu fjórmenninginn. Það er skemmst frá því að segja að við sigruðum Leynismenn 2-1. Báðir tvímenningsleikirnir unnust. Tobbi vann sinn leik 4/3 og Arnar Geir vann sinn leik 2/1, Ingi og Jónas töpuðu hins vegar 5/4. Þessi niðurstaða varð til þess að við spiluðum um 13 sætið við Akureyringa og var leikurinn eftir hádegið á sunnudeginum.
Eins og við var búist var um hörkuviðureign að ræða og ekkert gefið eftir. Jónas og Þröstur spiluðu fjórmenninginn og sigruðu örugglega 4/3 í sínum leik. Höfðu forystu frá fyrstu holu og létu hana aldrei af hendi þrátt fyrir áhlaup. Arnar Geir tapaði sínum leik 5/4 og úrslitin réðust því í leiknum hjá Tobba. Eins og oft áður þá voru leikirnir hjá Tobba þeir allra skemmtilegustu, miklar sveiflur og fáar holur féllu. Það átti við um þennan leik þar sem að úrslitin réðust ekki fyrr en á 19 holu þar sem að Akureyringurinn náði að knýja fram sigur. GA vann því 2-1 og hreppti því 13. sætið en okkar sveit varð í 14 sæti af 20 eins og áður segir.
Niðurstaðan var alveg ásættanleg og framtíðin er björt hjá okkur. Þorbergur er sá eini sem að „vex upp úr sveitinni“ en allir aðrir eiga kost á að spila næstu ár, sumir næstu tvö og aðrir þrjú.

Við vorum ekkert að bíða eftir mótslokun enda áttum við langa ferð fyrir höndum. Heimferðin gekk ljómandi vel hjá öllum og þessi ferð var hin eftirminnilegasta í alla staði.
Strákarnir voru okkur öllum til mikils sóma bæði innan vallar sem utan og þá er bara að fara að hlakka til næstu sveitakeppni

Hjörtur Geirmundsson


Uppskeruhátíðin

Hópurinn saman kominn 

Uppskeruhátíð vegna barna- og unglingastarfs Golfklúbbs Sauðárkróks var haldin s.l. sunnudag.  Fjölmargir krakkar mættu á hátíðina. Byrjað var á því að allir fóru í púttkeppni og síðan var farið í vippkeppni. Í púttkeppninni sigruðu Arnar Geir og Elísabet en í vippkeppninni sigruðu Ingvi Þór og Aldís Ósk. 

CIMG3483Síðan var farið í að veita viðurkenningar og verðlaun og stjórnuðu Óli þjálfari og Pétur því með miklum myndarskap.  Allir fengu sérstakt viðurkenningarskjal ásamt gjöf sem að kemur örugglega til með að nýtast vel næsta sumar.  Að því búnu fengu þeir 10 iðkendur sem að höfðu sýnt besta mætingu í sumar sérstaka viðurkenningu. Síðan voru veitt verðlaun til þeirra sem að sköruðu fram úr í sumar í sínum aldursflokkum.

Þá var slegið upp heljarinnar pizzuveislu fyrir allan hópinn - og líka þá foreldra sem að mættu.

Sigríður Eygló besti kylfingurinn ´08

 Þegar allir voru orðnir mettir þá var komið að síðasta liðnum á uppskeruhátíðinni.  Veittir voru farandbikarar fyrir Besta kylfinginn og Mestu framfarirnar fyrir aldurinn 13 ára og eldri.  Í stelpnaflokki fékk Elísabet Ásmundsdóttir viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar og Sigríður Eygló Unnarsdóttir var útnefnd besti kylfingurinn.  Í piltaflokki fékk Arnar Geir Hjartarson viðurkenningu fyrir mestar framfarir og Ingvi Þór Óskarsson var útnefndur besti kylfingurinn.

Að lokum þakkaði þjálfarinn, Ólafur Gylfason, fyrir sumarið sem var mjög ánægjulegt og ágætis árangur náðist á mörgum sviðum starfsins.

Ingvi Þór besti kylfingurinn ´08

Milli 30 og 40 krakkar mættu á æfingar í sumar og er það von okkar að þau verði enn fleiri á næsta sumri.

Það er von okkar í barna-og unglingaráði að allir verði duglegir að æfa þó að formlegum æfingum sé nú lokið enda er völlurinn í fínu ástandi og verður vonandi svo fram eftir hausti.


Uppskeruhátíð barna- og unglingastarfs á sunnudaginn

Minnum á uppskeruhátíðina sem verður á sunnudaginn kl. 14.00 í golfskálanum. Munum að koma með pútter og kylfu fyrir pútt- og vippkeppni. Óli þjálfari mætir að sjálfsögðu.

Stjórn barna- og unglingaráðs


Flottur árangur á Akureyri um helgina

 

Golfklúbbur Akureyrar stóð fyrir opnu barna- og unglingamóti á Jaðarsvelli í gær. Mótið var með svipuðu sniði og mótin á Sauðárkróki og Dalvík fyrr í sumar, en ríflega 60 krakkar tóku þátt. Níu keppendur fóru frá Sauðárkróki og stóðu sig með sóma að vanda.

Í flokki drengja 12-13 ára sigraði Arnar Geir Hjartarson eftir æsispennandi keppni. Þurfti þrefaldann bráðabana til að ákveða úrslit og spiluðu þeir 18 braut á Jaðarsvelli. Tvisvar fóru keppendurnir á pari, eða 3 höggum og sýndi Arnar fádæma öryggi með því að para brautina í þriðja skipti meðan andstæðingurinn fór á fjórum höggum. Þröstur Kárason þurfti einnig bráðabana til að ákveða hver hlyti þriðja sætið í sama flokki. Þröstur sigraði í annari tilraun og hefur reynsla þeirra af sveitakeppni unglinga líklega tryggt þeim þessi góðu úrslit, enda þarf sterkar taugar til að spila jafn vel með upp undir hundrað áhorfendur.

Hekla 1. án forgjafar og Aldís 1. með forgjöf

Í flokki stúlkna 12-13 ára varð Elísabet Ásmundsdóttir í þriðja sæti en Sigríður Eygló nokkru neðar. Í flokki drengja 10-11 ára varð Elvar Ingi Hjartarson í þriðja sæti án forgjafar og Arnar Ólafsson í þriðja sæti með forgjöf, en skammt undan varð Atli Freyr Rafnsson. Loks sigraði Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir með yfirburðum í flokki 10-11 ára stúlkna en Aldís Ósk Unnarsdóttir varð í öðru sæti. Hekla fékk bikar fyrir 1 sæti án forgjafar en Aldís fyrir 1 sæti með forgjöf og voru ansi sáttar við það.

 

,,Krakkarnir okkar,,Allir voru klúbbnum til sóma og veðrið lék við okkur á Akureyri, logn og ca 14 stiga hiti. Völlurinn var talsvert erfiðari en á Dalvík og erfitt að eiga við það þegar boltinn lenti utan brautar, enda sláttuvélarnar lítið verið notaðar á Akureyri síðustu daga. Við þökkum Akureyringum fyrir frábærar móttökur á glæsilegasta golfvelli Norðanlands. Þátttaka í þessum þremur barna- og unglingamótum sumarsins hefur verið mikils virði fyrir krakkana í GSS og ljóst er að framhald verður á næsta sumar. Svo er bara að halda sér í formi fyrir komandi sumar!

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband