Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Uppskeruhátíðin

Golfklúbbur Sauðárkróks heldur uppskeruhátíð vegna unglingastarfsins sunnudaginn 5.september n.k.Við ætlum að hittast kl.10 um morguninn við golfskálann og fara þaðan á Blönduós og spila nokkrar holur. Eldri spila 9 holur en þau yngri a.m.k. 5 holur.  Að því loknu ætlum við að skella okkur í sund á Blönduósi.  Þegar því er lokið þá höldum við heim í golfskálann á Hlíðarenda og gæðum okkur á pizzum og veitum viðurkenningar fyrir sumarið.Við ætlum að fara á einkabílum þannig að það er tilvalið fyrir foreldra að skella sér mér og spila jafnvel líka á Blönduósi. Við getum raðað í bíla um morguninn ef að því er að skipta. Ef að einhvern langar að fara með en hefur ekki far þá vinsamlega hafið samband við mig. Frítt er að spla á vellinum á Blönduósi og golfklúbburinn ætlar að borga fyrir krakkana í sundið á Blönduósi.Það væri hins vegar gott að hafa með sér nesti/ávexti til að borða eftir golfhringinn á Blönduósi áður en við förum síðan sund. Golfklúbburinn býður síðan öllum til pizzuveislunnar á eftir.Vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta. 

Gott væri að fá svar um þátttöku og hverjir komast með á bílum svo við getum gert okkur grein fyrir fjöldanum - netfang hjortur@fjolnet.is

 


Lokamót Norðurlandsmótaraðarinnar á Akureyri

Lokamót Norðurlandsmótaraðarinnar - Greifamótið - fór fram sunnudaginn 29.ágúst á Jaðarsvelli á Akureyri.  Rúmlega 80 þáttakendur voru á mótinu og átti Golfklúbbur Sauðárkróks 12 keppendur í flestum flokkum.  Hægt er að sjá heildarniðurstöðu mótsins í öllum flokkum á www.golf.is .

Í mótslok voru síðan Norðurlandsmeistarar krýndir. Hægt er að sjá upplýsingar um endanlega stigagjöf keppenda á heimasíðu mótaraðarinnar nordurgolf.blog.is en fjögur mót voru haldin og þrjú af þeim bestu töldu síðan.

Þeir keppendur frá Golfklúbbi Sauðárkróks sem að hlutu verðlaun á Greifamótinu voru:

Í flokki 15-16 ára stúlkna sigraði Sigríður Eygló Unnarsdóttir

Í flokki 15-16 ára stráka varð Arnar Geir Hjartarson í 2. sæti eftir bráðabana.

Í flokki 17-18 ára stráka varð Ingvi Þór Óskarsson í 3. sæti.

Myndir af mótinu koma inn á síðuna síðar í vikunni.

 

 


Síðasta mót í Norðurlandsmótaröðinni

 

Greifamótið - Unglingamótaröð Norðurlands

Fjórða mót Norðurlandsmótaraðarinnar verður haldið á Jaðarsvelli á Akureyri

sunnudaginn 29. ágúst

Höggleikur án forgjafar

Vipp keppni að loknum hring.

Keppt verður í eftirfarandi flokkum:

Stúlkur 12 ára og yngri, rauðir teigar, 9 holur

Stúlkur 14 ára og yngri, rauðir teigar, 18 holur

Stúlkur  15-16 ára, rauðir teigar, 18 holur

Stúlkur 17-18 ára, rauðir teigar, 18 holur

Stúlkur byrjendur, sérteigar, 9 holur

Drengir 12 ára og yngri, rauðir teigar, 9 holur

Drengir 14 ára og yngri, rauðir teigar, 18 holur

Drengir 15- 16 ára, gulir teigar, 18 holur

Drengir 17-18 ára, gulir teigar,18  holur

Drengir byrjendur, sérteigar, 9 holur

 

Veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu sætin í hverjum flokki og einnig verða veitt verðlaun

fyrir flest stig í vipp-keppninni í hverjum flokki.

Veitingar í boði að leik loknum.

Byrjað verður að ræsa út kl. 8.00 

Mótsgjald kr. 1.500

Skráning og upplýsingar á http://www.golf.is/ 

Skráningu lýkur föstudaginn 27.ágúst kl. 12:00

 


Sveitakeppni unglinga í Þorlákshöfn

Sveitakeppni 15 ára og yngri í Þorlákshöfn 20.-22.ágúst

Fjöldi fólks frá Sauðárkróki lagði leið sína í Þorlákshöfn um helgina að taka þátt í sveitakeppni unglinga 15 ára og yngri en Golfklúbbur Sauðárkróks var með sveitir bæði í telpna og piltaflokki. Gist var í grunnskólanum í Þorlákshöfn, yfirleitt í góðu yfirlæti, þótt einstaka heimakrakka hafi þótt flott að halda fyrir okkur vöku með barsmíðum á glugga og þess háttar. En þrátt fyrir smá pirring gekk allt vel.

Skýrsla liðsstjóra telpnasveitarinnar:

Að þessu sinni sendi GSS 4 stelpur í keppni í Sveitakeppni GSS. Því var ljóst að mikið álag yrði á stelpunum sem þyrftu að spila alla leiki í keppninni og ganga 15-20 kílómetra á dag á laugardegi og sunnudegi.  Sveitina skipuðu Sigríður Eygló Unnarsdóttir, Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir, Aldís Ósk Unnarsdóttir og Matthildur Kemp Guðnadóttir. Eftir æfingahring á fimmtudegi, sem gekk ekki of vel, vorum við ekkert sérstaklega bjartsýn fyrir höggleikinn á föstudegi, en eitt lið var sent heim eftir höggleikinn og fyrsta markmið okkar að komast í gegn um niðurskurðinn.

Á föstudeginum var farið að hvessa og völlurinn mjög erfiður á seinni 9 holunum. Okkar stelpur stóðu sig samt þokkalega. Sigríður spilaði best, á 99 höggum en Matthildur, Hekla og Aldís voru á svipuðu róli á 108-112 höggum. Niðurstaðan var þvi sú að sveitin lenti í 7. sæti eftir höggleikinn og sæti í hinni raunverulegu keppni því tryggt og allir frekar sáttir eftir höggleikinn og eftir sundferð í flottri sundlaug voru stelpurnar verðlaunaðar með ís í hinum landsfræga Skála þeirra Þorlákshafnarbúa.

Á laugardegi tók við hin raunverulega keppni og var þá farið að hvessa verulega. Vaknað upp úr 6 og keppt við þá sveit sem var sú erfiðasta í okkar riðli. B-Sveit Keilis. Sigríður og Hekla spiluðu tvímenninginn. Sigríður sigraði nokkuð örugglega og spilaði mjög gott golf. Hekla tapaði hins vegar og þarf svo sem ekki að undra enda forgjafarmunurinn um 18 högg. Aldís og Matthildur léku í fjórmenning og töpuðu fjórum fyrstu holunum og hittu varla bolta, en eftir það komu þær sterkar til baka en töpuðu þó fyrir rest. Sá leikur hefði vel getað unnist enda lítill styrkleikamunur á liðunum. Viðureignin tapaðist sem sagt 1-2.

Eftir hádegi var keppt við sveit Golfklúbbs Reykjavíkur, sem oft hefur verið með sterkari sveit í Íslandsmóti. Þær systur Aldís og Sigríður kepptu tvímenningsleikina og töpuðu báðar örugglega. Aldís hefði samt vel getað unnið sína viðureign en stutta spilið var ekki inni og hún tapaði 5/4. Sigríður fékk mjög erfiðan andstæðing og tapaði örugglega 7/5 Hekla og Matthildur sigruðu hins vegar örugglega í fjórmenningnum 4/3. Úrslitin voru því 1-2 fyrir GR.

Við vorum sátt eftir fyrri keppnisdaginn, tvær viðureignir höfðu unnist, en mikilvægur leikur var á sunnudagsmorgunn þar sem sveit Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar voru andstæðingarnir. Vindurinn var enn sá sami en það hafði kólnað og aðstæður ekki sem bestar. Sigríður og Aldís léku tvímenningsleikina en Hekla og Matthildur voru áfram í fjórmenning. Hekla og Matthildur voru greinilega komnar í flott form og afgreiddu sinn leik örugglega og unnu 3/2. Sigríður var yfir í sínum leik lengst af, mest fjórar holur upp, en síðan fór að síga á ógæfuhliðina og eftir leiðindaatvik þar sem keppendur voru ósammála um skor á holu og Sigríður gaf eftir var ljóst að GKG stelpan myndi vinna leikinn. Þetta atvik sýnir hvað mikilvægt er að ganga frá skori á hverri holu fyrir sig og keppendur séu sammála um stöðuna. Þetta atriði er eitthvað sem við þurfum að skoða í framtíðinni.  Aldís lenti hins vegar í hörkuleik þar sem andstæðingurinn bjargaði sér hvað eftir annað úr nánast vonlausri aðstöðu til að fella eða vinna holur. Hins vegar af Aldís miklu högglengri en púttin voru hörmuleg. Þegar tvær holur voru eftir átti Aldís tvær holur á andstæðinginn og allir héldu að málið væri afgreitt. En taugarnar voru þandar og Aldís átti erfiðan dag á flötunum. Ásthildur Lilja sem var andstæðingur hennar vann síðustu tvær og því ljóst að spila þyrfti bráðabana um hvaða lið ynni viðureignina. Okkur leist eiginlega ekki á blikuna. Taugarnar voru eiginlega farnar hjá Aldísi. Ásthildur hafði allt að vinna og farið var upp á 1 teig til að útkljá málið. Á fyrstu tveimur brautunum var gríðarlegur mótvindur og varla stætt á teigunum. En nú róaðst Aldís og spilaði frábærlega. Hún fékk öruggan skolla á fyrstu holu, en það gerði Ásthildur líka og farið var á aðra holu. Það fékk Aldís aftur skolla, en Ásthildur skramba og því sigraði Aldís á 20. holu. Okkar lið frekar sátt með þennan sigur þar sem hann þýddi að við spiluðum um 5 sætið á mótinu og það hefði verið leiðinlegt að tapa þessari viðureign eftir það sem á undan var gengið.

Seinni leikurinn á sunnudeginum var leikur um sæti. Allir voru dauðþreyttir en enginn kvartaði samt og stelpurnar í góðum gír til að takast á við Nesklúbbinn um 5 sætið. Ákveðið var að breyta til og láta þær systur Aldísi og Sigríði spila fjórmenning en Heklu og Matthildi tvímenningsleikina. Aldís og Sigríður rústuðu sínum leik og unnu á 12 holu, spiluðu yfirleitt á pari eða skolla. Hekla var í frábæru formi og sigraði örugglega í sínum leik 5/4 og þá var eftir Matthildur sem fékk það erfiða verkefni að spila gegn sterkasta leikmanni Nesklúbbins og forgjafarmunurinn var mikill eða tæplega 20 högg. En Matthildur var algjör hetja og tapaði ekki leiknum fyrr en á 17. holu 3/1. Allt liðið, þjálfari og fylgdarfólk gekk með Matthildi þessar síðustu holur og voru ansi stolt af yngsta leikmanninum og liðinu öllu sem hafði náð miklu betri árangri en við bjuggumst við í upphafi.  Leik lauk klukkan 8 á sunnudagskvöld og vorum við síðasta liðið sem fór af velli, en örugglega í hópi þeirra sem voru sáttastir eftir þessa daga.

Allar stelpurnar stóðu sig frábærlega á mótinu og voru klúbbnum til mikils sóma. Fimmta sætið var vissulega mjög gott en við vissum líka að með smá heppni og meiri trú hefðum við getað keppt um þriðja sæti eða jafnvel það fyrsta. Völlurinn var mjög erfiður, sérstaklega í þessu sífellda roki, en við vorum svo sem ýmsu vön.

Við getum tekið margt jákvætt frá þessu móti. Liðið hefur bætt sig mikið frá fyrra ári. Tvær af stelpurnum eiga tvö ár eftir í þessum aldursflokki og Matthildur þrjú. En Sigríður var á síðasta ári. Það vantar því nauðsynlega fleiri stelpur í liðið á næsta ári. Stelpurnar kvörtuðu aldrei undan þreytu þrátt fyrir að þurfa að spila alla leiki og vera illa á sig komnar.  Sigríður, Matthildur og Aldís unnu tvo leiki hver en Hekla þrjá leiki og við unnum tvær viðureignir en töpuðum tveimur með minnst mun. Örn Sölvi þjálfari stóð sig frábærlega var mjög hvetjandi og kenndi stelpunum margt á þessum dögum, sérstaklega þegar kom að því auka sjálfstraust og hafa sigurviljann.

Skýrsla liðsstjóra piltasveitarinnar:

Golfklúbburinn fór með eina 6 manna piltasveit til leiks og í henni voru þeir Arnar Geir Hjartarson, Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hlynur Freyr Einarsson, Jónas Már Kristjánsson og Þröstur Kárason. 19 sveitir voru skráðar til leiks í sveitakeppnina í piltaflokki að þessu sinni.

Æfingahringur var tekinn á fimmtudeginum og margt var prófað á honum og miklar pælingar varðandi kylfuval, leikskipulag ofl. Allir keppendurnir voru að spila völlinn í fyrsta skipti og má segja að hann hafi að mörgu leyti komið nokkuð á óvart.  Við gerðum okkur fljótt ljóst að lykilatriði til að spila gott golf væri að halda sig á brautunum því að utan þeirra beið sandurinn og og melgresið, eitthvað sem að við eigum ekki að venjast hér á norðurslóð. Örn Sölvi var með okkur á æfingahringnum og lagði línurnar fyrir strákana og hann skipulagði einnig hverjir myndu spila hverja umferð fyrir sig en einungis 4 spila í hverri umferð. Það voru því alltaf einhverjir 2 sem að hvíldu í hverjum leik.

Á föstudeginum var leikinn höggleikur en hann réð því í hvaða riðli við lentum en 19 lið voru skráð til leiks í piltaflokknum.  Þeir sem að spiluðu voru Arnar Geir, Atli Freyr, Elvar Ingi og Þröstur.  Þrjú bestu skorin töldu síðan í höggleiknum.  Ég held að segja megi að strákarnir hafi spilað mjög skynsamlega þennan dag og varð niðurstaðan sú að við vorum í 10 sæti að loknum höggleiknum.  Arnar Geir spilaði best eða á 83 höggum, Elvar Ingi var á 90 höggum, Þröstur á 94 höggum og Atli Freyr var á 107 höggum. Þetta var alveg ljómandi góð niðurstaða að loknum höggleiknum og allir sáttir eftir þennan 1.dag.

Síðan rann laugardagurinn upp og var hann tekinn snemma og farið á æfingasvæðið upp úr kl. 7  þar sem að Örn Sölvi fór yfir mannskapinn.  Liðsskipan í þessum 1. leik holukeppninnar var að tvímenninginn spiluðu þeir Arnar Geir og Elvar Ingi en í fjórmenningnum spiluðu Þröstur og Hlynur Freyr.  Andstæðingarnir voru úr Golfklúbbi Hveragerðis. Elvar Ingi spilaði af miklu öryggi og sigraði nokkuð örugglega í sínum leik 5/4, Arnar Geir spilaði hörkuleik en vann að lokum á 17.braut 3/1. Fjórmenningurinn hjá Þresti og Hlyn tapaðist hins vegar nokkuð örugglega 5/4. Leikurinn í heild sinni vannst því með tveimur vinningum gegn einum, ágætis niðurstaða.

2. umferð var síðan leikin eftir hádegið á laugardeginum og voru andstæðingarnir úr Golfklúbbnum Oddi. Arnar Geir og Elvar spiluðu áfram tvímenninginn en Þröstur og Jónas spiluðu fjórmenninginn.  Þetta var töluvert erfiðari viðureign heldur en um morguninn. Enda tapaðist hann með tveimur vinningum gegn einum.  Arnar Geir vann sinn leik eftir að hafa verið lengi undir í honum en úrslit réðust ekki fyrr en á 18. braut í leiknum en þá braut sigraði Arnar og því í leiknum 1/0. Elvar tapaði sínum leik örugglega 7/5 og náði ekki að fylgja eftir góðum leik um morguninn auk þess að mótherjinn var í miklu stuði. Sama má segja um fjórmenninginn sem tapaðist 4/3 en þar voru mótherjarnir að spila mjög gott golf.

3. umferð fór fram á sunnudagsmorguninn og voru andstæðingarnir úr Nesklúbbnum á Seltjarnarnesi. Arnar Geir og Þröstur spiluðu tvímenning en Atli Freyr og Elvar Ingi spiluðu fjórmenninginn.  Það er skemmst frá því að segja að drengirnir í NK spiluðu flott golf þennan morguninn og allan tímann var mjög á brattann að sækja og því miður töpuðust allir leikirnir.   Arnar Geir tapaði á 17.holu  eftir jafnan leik 2/1, Þröstur tapaði 5/4 eftir jafnan leik framan af.  Atli Freyr og Elvar Ingi byrjuðu ágætlega í sínum leik en töpuðu að lokum 7/6.

Eftir mjög góðan höggleik þá varð niðurstaðan úr holukeppninni að strákarnir myndu spila um 15.-16. sætið, en auðvitað hefðum við viljað vera ofar og með smá heppni hefði það alveg getað gerst, en  ljóst er að við þurfum að leggja meiri rækt við holukeppnisformið til að ná betri úrslitum þar í framtíðinni.  En andstæðingar í þessum leik voru hins vegar vinir okkar í sameiginlegri sveit Dalvíkur/Húsavíkur/Ólafsfjarðar sem auðvitað var skemmtilegt þar sem að allir keppendur þekkjast mjög vel og því um sannkallaða „derby" viðureign að ræða. 

Leikurinn fór fram eftir hádegið á sunnudeginum og raðaðist þannig að í fjórmenningnum spiluðu Þröstur og Elvar Ingi á móti þeim Þorgeiri Sigurbjörnssyni og Ívani Darra Jónssyni. Þetta var mjög skemmtileg viðureign en fljótlega náðu okkar menn þó frumkvæðinu með öruggri og skynsamri spilamennsku og héldu því vel.  Unnu því leikinn að lokum á 14.holu 5/4. Arnar Geir spilaði á móti Arnóri Snæ Guðmundssyni. Þeir félagar spiluðu frábært golf á fyrri 9 holunum og allt var í járnum eftir þær en að lokum fór þó að Arnar Geir hafði betur og sigraði á 16.holu 4/3. Þá spilaði Jónas Már við Reyni Hannesson í lokaleiknum og þar hafði Reynir betur og vann á 12. holu 7/6.

Niðurstaðan varð því að strákarnir enduðu í 15.sæti. eftir að hafa verið í 10. sæti eftir höggleikinn, og vissulega var gaman að enda keppnina á sigurleik. Svona keppni er líka mikil upplifun og reynsla sem að kemur til með að nýtast þeim vel í framtíðinni. Strákarnir stóðu sig mjög vel og voru til fyrirmyndar jafnt innan vallar sem utan. Liðsheildin var líka til fyrirmyndar og þeir sem að ekki spiluðu fylgdu alltaf sínu liði til loka hvers leiks. Ákveðin endurnýjun verður síðan í sveitinni á næsta ári en bæði Arnar Geir og Þröstur voru á síðasta ári en hinir leikmennirnir eiga eftir tvö og þrjú ár eftir í þessari keppni, þá opnast um leið möguleiki fyrir aðra að stíga upp og taka af skarið

Einnig ber að þakka öllum þeim sem að tóku þátt í þessari helgi með okkur, löbbuðu með okkur öllum og studdu dyggilega við bakið á keppendum úti á vellinum. Örn Sölvi þjálfari var með okkur frá morgni til kvölds frá fimmtudegi til sunnudags og var duglegur að gefa strákunum góð ráð og leiðbeina í gegnum keppnina.

Helmingurinn af liðinu fór beint í Vatnaskóg eftir mótið í fermingarfræðslu, en hinn helmingurinn hélt heim á Krók en allir keppendur, foreldrar og þjálfari voru ánægð með þessa daga í Þorlákshöfn.

Nokkrar myndir úr ferðinni er komnar í myndaalbúmið en vonandi bætast fleiri við síðar. 


Sveitakeppni unglinga 15 ára og yngri - keppnissveitir

Val fyrir sveitakeppni unglinga 15 ára og yngri hefur farið fram:

Sveitakeppnin fer fram í Þorlákshöfn dagana 20.-22. ágúst n.k.

Listinn lítur svona út í stafrófsröð:

Stúlkur:

Aldís Ósk Unnarsdóttir

Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir

Matthildur Kemp Guðnadóttir

Sigríður Eygló Unnarsdóttir

Liðsstjóri: Unnar Ingvarsson

Strákar:

Arnar Geir Hjartarson

Atli Freyr Rafnsson

Elvar Ingi Hjartarson

Hlynur Freyr Einarsson

Jónas Már Kristjánsson

Þröstur Kárason

Liðsstjóri: Hjörtur Geimundsson


Golfskólanum lokið

Núna er golfskólanum lokið þetta sumarið.Fyrir hönd golfklúbbsins þá vil ég þakka kærlega fyrir þátttökuna þetta sumarið.Ég vil samt benda á að golfvöllurinn og æfingasvæðið verður eftir sem áður opið öllum sem að vilja en engir leiðbeinendur eða neitt eftirlit verður með þeim sem að verða á vellinum.Við eigum hins vegar eftir að halda veglega uppskeruhátíð og verður hún auglýst síðar.Einnig er lokamót Norðurlandsmótaraðarinnar á Akureyri eftir en það verður haldið sunnudaginn 29.ágúst. En enn og aftur takk fyrir golfskólann þetta sumarið.

Golf á unglingalandsmóti

Arnar Geir og Sigríður EyglóKeppt var í golfi á Unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.  7 þátttakendur fóru frá Golfklúbbi Sauðárkróks og kepptu undir merkjum Ungmennasambands Skagafjarðar - UMSS.  64 voru skráðir til leiks í þremur flokkum 11-13 ára, 14-15 ára og 16-18 ára í stráka og stelpnaflokkum.  Keppendur frá okkur stóðu sig með miklum sóma að venju og urðu í eftirtöldum sætum.

Í flokki 14-15 ára sigraði Arnar Geir Hjartarson, Sigríður Eygló Unnarsdóttir varð í 3.sæti eftir að hafa hafa spilað bráðabana um 2.sætið og Þröstur Kárason varð í 4.sæti. 

Í flokki 11-13 ára varð Elvar Ingi Hjartarson í 5.sæti, Jónas Már Kristjánsson varð í 6.sæti, Hlynur Freyr Einarsson varð í 9.sæti og Jóhannes Friðrik Ingimundarson varð í 16. sæti.

Ekki voru keppendur frá okkur í flokki 16-18 ára.

Keppt var á glæsilegum velli Golfklúbbs Borgarness að Hamri og var frábært veður sem að keppendur fengu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband