Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Uppskeruhátíðinni lokið

Unglingaráð Golfklúbbs Sauðárkróks hélt uppskeruhátíðina núna fyrr í dag.  Við byrjuðum daginn á því að hittast við golfskálann en þaðan var haldið á Vatnahverfisvöll við Blöndós þar sem að skipt var í tvö lið og spiluð bændaglíma.  Bændur að þessu sinni voru þeir Arnar Geir og Þröstur en þeir hafa báru hitann og þungann af golfskólanum í sumar fyrir yngstu kylfingana. Veðrið var flott í dag 20 stiga hita en töluverður vindur til að byrja með en svo lægði fljótlega.  Vatnahverfisvöllur var í flottu standi. Það fór svo þegar upp var staðið að lið Arnars Geirs hafði betur. Þegar golfmótinu var lokið fór allur hópurinn í nýja sundlaug þeirra Blönduósinga og þar var svo sannarlega tekið á því í rennibrautunum !  Þegar allir voru búnir að renna sér nóg var stefnan tekin til baka í Skagafjörðinn, nánar tiltekið í golfskálann. Þar fór sjálf uppskeruhátíðin fram.  Byrjað var á því að allir kylfingarnir fengu glaðning frá KPMG. Síðan fór fram afhending verðlauna og viðurkenninga. Byrjað var á því að veita verðlaun fyrir nokkur miðvikudagsmót í sumar og sigurvegarar í þeim voru þeir Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson og Hlynur Freyr Einarsson.  Arnar Geir tók við farandbikar fyrir hönd síns liðs vegna sigurs í bændaglímunni.  Þá var veitt viðurkenning fyrir bestu mætingu í golfskólann þetta sumarið og það var Hákon Ingi Rafnsson sem hlaut hana. Hugarfarsverðlaunin fyrir sumarið 2010 hlaut Jónas Már Kristjánsson. Því næst voru veitt verðlaun fyrir mestu framfarir ársins.  Í stúlknaflokki fékk Aldís Ósk Unnarsdóttir þau verðlaun og í strákaflokki var það Hlynur Freyr Einarsson.  Að lokum voru bestu kylfingum í stúlkna og strákaflokkum veitt verðlaun, en það voru þau Sigríður Eygló Unnarsdóttir og Arnar Geir Hjartarson sem að urðu fyrir valinu.

Að lokinni verðlaunaafhendingu var síðan heljarinnar pizzuveisla þannig að allir fóru saddir heim og ánægðir með daginn. Ágæt þátttaka var í uppskeruhátíðinni bæði af kylfingum og foreldrum, en foreldrar hafa verið mjög duglegir við að fylgja börnum sínum í sumar og er það mjög ánægjuleg þróun.  Að lokum var síðan öllum þeim sem að staðið hafa að unglingastarfinu í sumar fyrir góð störf, sérstaklega þjálfaranum okkar honum Erni Sölva sem var einmitt með okkur í dag.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband