Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Lokamótið í Norðurlandsmótaröðinni

Lokamótið í Norðurlandsmótaröðinni fer fram á Jaðarsvelli á Akureyri sunnudaginn 4. september n.k.

Við viljum hvetja alla til að skella sér á Akureyri og ljúka þar með þessari mótaröð með glæsibrag.  Opnað hefur verið fyrir skráningu á www.golf.is. Stöðuna í stigakeppninni er hægt að sjá á nordurgolf.blog.is


Uppskeruhátíðin

IMG 7609Uppskeruhátíðin var haldin í dag í golfskálanum og voru þar veittar viðurkenningar fyrir árangur sumarsins.

Richard fór yfir starfið í sumar og fór yfir það hvernig kylfingar geta haldið áfram að bæta sig í vetur, en hann hefur fullan hug á því að vera í sambandi við krakkana í vetur og að koma aftur næsta sumar ef að nokkur kostur er á.

En þá var komið að viðurkenningum sumarsins. Fyrir það fyrsta var það Hákon Ingi Rafnsson sem að var með bestu mætinguna í golfskólanum þetta sumarið.  Þriðjudagsmótaröðina sigraði Sigríður Eygló Unnarsdóttir og holukeppnina sigraði Arnar Geir Hjartarson.  Þá var komið að mestu framförunum þetta sumarið en þau hlutu þau Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir og Pálmi Þórsson.  Að lokum voru síðan bestu kylfingar sumarsins krýndir. Það voru þau Aldís Unnarsdóttir og Hlynur Freyr Einarsson sem að hlutu nafnbótina að þessu sinni.

Golfvertíðinni er nú ekki lokið hjá okkur ennþá því að eftir er síðasta mótið á Norðurlandsmótaröðinni á Akureyri en það verður sunnudaginn 4. september.  Þá eigum við líka eftir að fara í haustferðina okkar eins og undanfarin ár og verður hún auglýst þegar nær dregur.


Sveitakeppni drengja 15 ára og yngri

CIMG5367Sveitakeppni derngja 15 ára og yngri – skýrsla liðsstjóra.

Golfklúbbur Sauðárkróks sendi 6 kylfinga til leiks í sveitakeppni 15 ára og yngri drengja sem að haldin var á Flúðum 19-21 ágúst s.l. Þeir sem að voru í sveitinn voru þeir Arnar Ólafsson, Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hlynur Freyr Einarsson, Jónas Már Kristjánsson og Pálmi Þórsson. Farið var frá Sauðárkróki fimmtudaginn 18.ágúst og keyrt á Selsvöll á Flúðum þar sem að æfingahringur var spilaður. Richard kíkti á okkur undlir lok hringsins en hann var á ferð og flugi þessa helgina þar sem að stelpurnar voru að keppa í Leirunni á Suðurnesjum.

Það var 12 manna hópur sem að fór í þessa ferð og gistum við sem fyrr í Syðra-Langholti eins og svo oft áður þegar við erum að keppa á þessum slóðum. Strákarnir fengu heilan bústað fyrir sig en foreldrarnir voru á efri hæðinni hjá Jóhannesi og Sísu í góðu yfirlæti. Kvöldkaffið hjá Sísu var að sjálfsögðu á sínum stað.

Föstudaginn 19.ágúst hófst síðan keppnin með því að spilaður var höggleikur. 22 sveitir voru mættar til leiks og í hverri umferð léku 4 keppendur en 2 hvíldu. Þeir sem að spiluðu höggleikinn voru þeir Arnar, Atli, Elvar og Hlynur. Þrjú bestu skorin töldu í þessari umferð og réðu síðan hvar í röðinni sveitirnar lentu. Eftir höggleikinn var niðurstaðan 16. sæti og við vorum í C-riðli. Keppnin var gríðarlega jöfn og voru tvö önnur lið jöfn okkur með 270 högg en besta skor hjá 4. Keppenda dugði okkur í 16.sætið. Til marks um hversu jöfn keppnin var þá munaði einungis 8 höggum á liðinu sem að varð í 10 sæti og því sem að endaði í 18 sæti eftir höggleikinn. Við vorum því í riðli með GL, GKJ-B og GHD.

Laugardaginn 20.ágúst hófst síðan holukeppnin og fyrsti leikurinn var á móti GL ( Akranes ). Jónas og Hlynur spiluðu fjórmenning, Atli Freyr og Elvar Ingi spiluðu tvímenning. Þetta lið var klárlega það langsterkasta í riðliðnum og allir leikir töpuðust. Eftir hádegið þá var spilað við GKJ-B ( Mosfellsbær ). Sama liðsskipan var í þeim leik. Elvar Ingi vann sinn leik 2/0, Atli tapaði sínum leik 4/3 og Jónas og Hlynur Freyr töpuðu 7/6.

Sunnudaginn 21.ágúst var síðan byrjað á að leika við GHD( Dalvík ). Sannkallaður nágrannaslagur þar sem keppendur þekkjast af Norðurlandsmótaröðinni. Arnar og Atli Freyr spiluðu fjórmenninginn við Friðrik og Jóhann og töpuðu 3/2, Hlynur Freyr spilaði tvímenning við Arnór og tapaði 2/1 og Elvar Ingi spilaði einnig tvímenning við Helga og sigraði 3/2. Þessir leikir voru mjög jafnir og hefðu í raun getað lent hvoru megin.

Eftir þessa riðlakeppni var því ljóst að við myndum spila um 15-16 sætið og liðið sem við mættum eftir hádegið var GO ( Golfkl. Oddur í Heiðmörk ). Jónas og Pálmi spiluðu fjórmennig og töpuðu 2/1 í mjög skemmtilegum leik þar sem þeir sýndu mikla keppnishörku eftir að hafa lent undir mjög snemma í leiknum og gáfust aldrei upp. Hlynur Freyr og Elvar Ingi sigrðu hins vegar báðir í sínum leikum 3/2 sem voru mjög jafnir og skemmtilegir allan tímann. Niðurstaðan varð því sú að við enduðum í 15.sæti af 22.sveitum. Ljóst er að á næsta ári komum við alveg tvíelfdir til leiks og helmingur sveitarinnar á eftir 1 ár í þessum aldursflokki og hinn hlutinn á eftir 2 ár. Við stefnum því að enn betri árangri á næsta ári.

Þessi helgi var mjög eftirminnileg fyrir alla sem að voru á staðnum og það var góður stígandi í þessu hjá okkur og það var óneitanlega skemmtilegri heimferðin með sigur í síðasta leiknum.


Sveitakeppni stúlkna 18 ára og yngri

Copy of DSC00779Sveitakeppni stúlkna 18 ára og yngri 2011 – skýrsla liðsstjóra

Undanfarin tvö ár hefur GSS sent lið til keppni í sveitakeppni stúlkna. Árið 2009 var keppt á Flúðum og fengu stúlkurnar þá eldskírnina , þar sem ákveðið var að sameina keppni 18 ára og yngri og 15 ára og yngri og okkar stúlkur ungar og óreyndar í keppni. Þær stóðu sig samt með mikilli prýði. Árið 2010 var sent lið til Þorlákshafnar og keppt í flokki 15 ára og yngri. Þá náðist árangur framar vonum og endaði liðið í 5 sæti. Nú í ár var ákveðið að senda lið í flokk 18 ára og yngri, þar sem stúlkurnar voru aðeins fjórar og þar af ein orðin 16 ára. Vitað var að þetta yrði erfið keppni, þar sem nokkrir af sterkustu kvenkylfingum landsins kepptu í þessum flokki og gerðum við okkur ekki háar hugmyndir um sigra, en allar voru stúlkurnar ákveðnar í að gera sitt allra besta.

Um 10 manna hópur foreldra og stúlkna lagði af stað til Keflavíkur á Leiruna og var spilaður æfingahringur á fimmtudegi. Richard golfkennari fór með stúlkunum fyrri 9 holur vallarins en varð síðan frá að hverfa til Flúða, þar sem strákarnir kepptu. Hann kom síðan aftur og var með stelpunum á laugardeginum. Gist var á Vallarsvæðinu í Gistihúsi Keflavíkur og fór þokkalega um mannskapinn.

Alls mættu 5 lið til keppni. Tvö lið frá GK og GR voru langsterkust, en gerðum við okkur vonir um að geta náð hagstæðum úrslitum gegn hinum liðunum frá GKG og Nesklúbbnum. Stúlkurnar frá GSS voru þær Aldís Ósk Unnarsdóttir, Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir, Matthildur Kemp Guðnadóttir og Sigríður Eygló Unnarsdóttir. Sigríður var orðin 16 ára, Hekla og Aldís á 14. ári og Matthildur 13 ára.

Í fyrstu umferð snemma á föstudagsmorgni mætti sveit GSS liði Nesklúbbsins, en þær eiga greinilega við sömu erfiðleika að etja og okkar klúbbur, að vera með í sínum röðum fáar eldri stúlkur sem geta tekið þátt í svona keppni, svo sveitina skipuðu nokkrar ungar stúlkum með öðrum reyndari. Viðureignin var mjög spennandi. Þær systur, Sigríður og Aldís, kepptu einmenningsleikina en Hekla og Matthildur tvímenninginn, en til skýringar fyrir óinnvígða í golfíþróttina, þá er einn í hverju liði í tvímenningi en tveir í hverju liði í fjórmenningi, sem leika þó sama bolta til skiptis. Sigríður og Aldís náðu snemma þægilegri forystu og létu hana aldrei af hendi. Andstæðingur Sigríðar, sem er mjög góður kylfingur, var óheppinn og hitti glompur út um allan völl og Sigríður spilaði vel. Aldís sýndi enga miskun gegn andstæðingi sínum. Fjórmenningurinn var æsispennandi og tapaðist hann eftir harða baráttu á 18. holu. Frábær byrjun var því staðreynd, sigur 2-1 og höfðu foreldrarnir að orði að markmiðinu væri náð, að vinna leik í þessari erfiðu keppni.

Í annari umferð mættum við Íslandsmeisturunum í Golfklúbbi Reykjavíkur. Markmiðið var að hanga í þeim, vinna einhverjar holur og jafna einhverjar. Í sveitakeppni er uppstilling liða hálfgert lottó, því liðsstjórar vita ekki hvernig andstæðingurinn stillir upp sínu liði. Ákveðið var að öllu yrði snúið á haus. Matthildur og Hekla spiluðu einmenningsleikina en Sigríður og Aldís færu í fjórmenning. Vonin var að þar væri helst von til að ná punkti, en þrátt fyrir þessar tilfæringar voru GR stúlkur einfaldlega betri kylfingar en okkar stúlkur. Engu að síður léku okkar stelpur mjög vel. Matthildur lék t.d. gegn Sunnu Víðisdóttir sem er með ríflega 2 í forgjöf, en hún stóð sig samt eins og hetja og hékk í Sunnu lengi framanaf. Sama má segja um hinar stúlkurnar, en þrátt fyrir hetjulega barátttu varð niðurstaðan 3-0 tap.

Morguninn eftir mættum við liðið GKG. Með sigri hefði þriðja sætið í keppninni verið í augsýn, en lið Kópavogs og Garðabæjar var sterkt. Sigríður og Hekla voru í tvímenning en Aldís og Matthildur í fjórmenning. Líklega var þetta slakasti leikur okkar stúlkna, en liðsmenn GKG voru einnig að spila mjög gott golf, þær fengu fugla út um allan völl í byrjun leikjanna og náðu fljótlega þægilegri forystu og þrátt fyrir að okkar stelpur klóruðu í bakkann, var það ekki nóg og leikirnir töpuðust einn af öðrum.

Seinnipartinn var síðan leikinn síðasta viðureignin, gegn Golflkúbbnum Keili, sem var með gríðarsterkt lið með Íslandsmeistarann Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur í fararbroddi. Matthildur fékk það verkefni að kljást við hana, enda var liðinu stillt upp með það í huga. Matthildur spilaði frábært golf, fékk t.d. 3 pör á fyrstu fjórum holunum, en Guðrún Brá er ekki vön að vera mikið yfir pari golfvalla yfirleitt og spilaði á pari vallarins í leiknum. Matthildur hékk í henni, jafnaði margar holur, fékk fullt af pörum og einn fugl og hefur líklega aldrei spilað betur, en það dugði auðvitað ekki til sigurs. Sigríður spilaði hinn einmenningsleikinn og lék einnig afar vel. Hún var eina holu undir eftir 9 spilaðar og var nálægt pari, en þá tók andstæðingurinn uppá að hlaða niður fuglum og leikurinn kláraðist fljótlega. Í fjórmenningnum var það sama upp á teningnum, GK stúlkur spiluðu mjög vel og fengu par eða fugla á flestar holur. Allar stúlkurnar spiluðu glæsilegt golf, þó það nægði ekki til gegn þessu liði, sem reyndist, þegar upp var staðið vera ósigrað í keppninni og töpuðu engum leik.

Vegna fyrirkomulags keppninnar sat liðið hjá á sunnudegi og var því mótinu lokið fyrir GSS stúlkur á laugardagskvöldinu. Stelpurnar fóru í bíó og skemmtu sér vel. Niðurstaðan í mótinu varð fjórða sætið, sem er mjög góður árangur. Það sem meira er um vert voru allar stelpurnar að spila gott golf og betur en forgjöfin segir til um. Þær voru klúbbnum til sóma og skemmtu sér konunglega í blíðviðrinu í Leirunni þessa helgi.


Golfskólanum lokið, sveitakeppnir unglinga og uppskeruhátíð

Þá er golfskólanum formlega lokið þetta sumarið en völlurinn er ennþá í fínu standi svo að við hvetjum alla til að spila áfram eins og hægt er.  Við ætlum að halda uppskeruhátíð þriðjudaginn 23.ágúst n.k. kl.17:00.  Í næstu viku heldur Richard golfkennari síðan til síns heima.

Núna um helgina verður síðan sveitakeppni unglinga spiluð.

Stúlkurnar keppa í flokki 18 ára og yngri í Leirunni í Keflavík en strákarnir verða á Flúðum í flokki 15 ára og yngri, en þar eru hvorki fleiri né færri en 23 sveitir skráðar til leiks.


Íslandsmót í höggleik unglinga

Um síðustu helgi fór fram íslandsmót unglinga 18 ára og yngri á Grafarholtsvelli í Reykjavík.

Mikið fjölmenni var á mótinu og komust færri að en vildu og voru takmarkanir í flestum flokkum. Alls voru 144 þátttakendur.

3 keppendur fóru frá Golfklúbbi Sauðárkróks og stóðu sig með prýði.

Í flokki 14 ára og yngri keppti Aldís Ósk Unnarsdóttir og varð í 8.sæti.

Í flokki 15-16 ára kepptu Sigríður Eygló Unnarsdóttir og varð í 12 sæti í stúlknaflokki og Arnar Geir Hjartarson sem að varð í 15.sæti í drengjaflokknum.


Sveitakeppnir unglinga

Richard hefur valið 6 drengi í sveitakeppni unglinga 15 ára og yngri sem að haldin verður á Flúðum 19.-21.ágúst n.k.

Þeir eru:

 

Arnar Ólafsson

Atli Freyr Rafnsson

Elvar Ingi Hjartarson

Hlynur Freyr Einarsson

Jónas Már Kristjánsson

Pálmi Þórsson

Þá sendir klúbburinn einnig stúlknasveit í flokki 18 ára og yngri sem að haldin verður sömu daga í Leirunni við Keflavík.

Þær eru:

 

Aldís Ósk Unnarsdóttir

Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir

Matthildur Kemp Guðnadóttir

Sigríður Eygló Unnarsdóttir

 


Fjáröflun

Barna-og unglingaráð Golfklúbbs Sauðárkróks ætlar að vera með fjáraflanir núna í vikunni.

Hægt verður að koma með flöskur og dósir í skýlið á æfingasvæðinu alla vikuna, en einnig er hægt að hringja í Hjört í síma 8217041 og þá verða þær sóttar.

 

Þá ætlum við að vera með kökubasar í anddyri Skagfirðingabúðar föstudaginn 5.ágúst n.k.  Við viljum biðja foreldra þeirra barna og unglinga sem eru í golfskólanum að koma með tvær kökur í Skagfirðingabúð kl.16.00 á föstudaginn.   Margrét Helgadóttir hefur umsjón með kökubasarnum.

Ef að þið getið ekki komið með köku á basarinn þá er hægt að leggja andvirði þeirra inn á reikning í Arion banka – 3.000,-. Reikningsnúmerið er 0310-26-2106 kt. 570884-0349.


Kylfingar á ferð og flugi....

Þó að lítið hafi verið um mótahald á Norðurlandi upp á síðkastið þá hafa unglingar GSS ekki setið auðum höndum.  Arnar Geir og Elvar Ingi tóku þátt í íslandsmótinu í holukeppni sem að er hluti af Arion banka mótaröð unglinga í Borgarnesi 26.júlí s.l. Arnar Geir varð í 7-9 sæti eftir höggleikinn og komst þar með í 1 6 manna úrslit fyrir holukeppnina. Þar keppti hann við sterkan kylfing úr GR og tapaði 3/2. Elvar Ingi komst hins vegar ekki í 16 manna úrslit.

Um verslunarmannahelgina fóru síðan Jónas Már, Pálmi, Elvar Ingi og Arnar Geir og kepptu í golfi á unglingalandsmótinu sem að fór fram á Egilsstöðum. Ekkjufellsvöll voru langflestir að spila í 1.skipti og kom hann skemmtilega á óvart og er mjög fjölbreyttur og öðruvísi en við eigum að venjast. 66 þátttakendur voru skráðir þar til leiks en 45 luku þar keppni.  Arnar Geir sigraði í 16-18 ára flokki, Jónas varð í 8.sæti í 14-15 ára flokki, Elvar Ingi varð í 4.sæti í flokki 11-13 ára og Pálmi varð í 13.sæti í sama flokki.

Keppendur af Norðurlandi voru í meirihluta á þessu móti og sýnir það enn og aftur gróskuna í golfinu hér Norðanlands.

Um næstu helgi verður síðan íslandsmót í höggleik haldið í Grafarholti í Reykjavík og þegar hafa nokkrir kylfingar skráð sig til leiks frá GSS.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband