Sveitakeppni drengja 15 ára og yngri
23.8.2011 | 21:24
Sveitakeppni derngja 15 ára og yngri skýrsla liðsstjóra.
Golfklúbbur Sauðárkróks sendi 6 kylfinga til leiks í sveitakeppni 15 ára og yngri drengja sem að haldin var á Flúðum 19-21 ágúst s.l. Þeir sem að voru í sveitinn voru þeir Arnar Ólafsson, Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hlynur Freyr Einarsson, Jónas Már Kristjánsson og Pálmi Þórsson. Farið var frá Sauðárkróki fimmtudaginn 18.ágúst og keyrt á Selsvöll á Flúðum þar sem að æfingahringur var spilaður. Richard kíkti á okkur undlir lok hringsins en hann var á ferð og flugi þessa helgina þar sem að stelpurnar voru að keppa í Leirunni á Suðurnesjum.
Það var 12 manna hópur sem að fór í þessa ferð og gistum við sem fyrr í Syðra-Langholti eins og svo oft áður þegar við erum að keppa á þessum slóðum. Strákarnir fengu heilan bústað fyrir sig en foreldrarnir voru á efri hæðinni hjá Jóhannesi og Sísu í góðu yfirlæti. Kvöldkaffið hjá Sísu var að sjálfsögðu á sínum stað.
Föstudaginn 19.ágúst hófst síðan keppnin með því að spilaður var höggleikur. 22 sveitir voru mættar til leiks og í hverri umferð léku 4 keppendur en 2 hvíldu. Þeir sem að spiluðu höggleikinn voru þeir Arnar, Atli, Elvar og Hlynur. Þrjú bestu skorin töldu í þessari umferð og réðu síðan hvar í röðinni sveitirnar lentu. Eftir höggleikinn var niðurstaðan 16. sæti og við vorum í C-riðli. Keppnin var gríðarlega jöfn og voru tvö önnur lið jöfn okkur með 270 högg en besta skor hjá 4. Keppenda dugði okkur í 16.sætið. Til marks um hversu jöfn keppnin var þá munaði einungis 8 höggum á liðinu sem að varð í 10 sæti og því sem að endaði í 18 sæti eftir höggleikinn. Við vorum því í riðli með GL, GKJ-B og GHD.
Laugardaginn 20.ágúst hófst síðan holukeppnin og fyrsti leikurinn var á móti GL ( Akranes ). Jónas og Hlynur spiluðu fjórmenning, Atli Freyr og Elvar Ingi spiluðu tvímenning. Þetta lið var klárlega það langsterkasta í riðliðnum og allir leikir töpuðust. Eftir hádegið þá var spilað við GKJ-B ( Mosfellsbær ). Sama liðsskipan var í þeim leik. Elvar Ingi vann sinn leik 2/0, Atli tapaði sínum leik 4/3 og Jónas og Hlynur Freyr töpuðu 7/6.
Sunnudaginn 21.ágúst var síðan byrjað á að leika við GHD( Dalvík ). Sannkallaður nágrannaslagur þar sem keppendur þekkjast af Norðurlandsmótaröðinni. Arnar og Atli Freyr spiluðu fjórmenninginn við Friðrik og Jóhann og töpuðu 3/2, Hlynur Freyr spilaði tvímenning við Arnór og tapaði 2/1 og Elvar Ingi spilaði einnig tvímenning við Helga og sigraði 3/2. Þessir leikir voru mjög jafnir og hefðu í raun getað lent hvoru megin.
Eftir þessa riðlakeppni var því ljóst að við myndum spila um 15-16 sætið og liðið sem við mættum eftir hádegið var GO ( Golfkl. Oddur í Heiðmörk ). Jónas og Pálmi spiluðu fjórmennig og töpuðu 2/1 í mjög skemmtilegum leik þar sem þeir sýndu mikla keppnishörku eftir að hafa lent undir mjög snemma í leiknum og gáfust aldrei upp. Hlynur Freyr og Elvar Ingi sigrðu hins vegar báðir í sínum leikum 3/2 sem voru mjög jafnir og skemmtilegir allan tímann. Niðurstaðan varð því sú að við enduðum í 15.sæti af 22.sveitum. Ljóst er að á næsta ári komum við alveg tvíelfdir til leiks og helmingur sveitarinnar á eftir 1 ár í þessum aldursflokki og hinn hlutinn á eftir 2 ár. Við stefnum því að enn betri árangri á næsta ári.
Þessi helgi var mjög eftirminnileg fyrir alla sem að voru á staðnum og það var góður stígandi í þessu hjá okkur og það var óneitanlega skemmtilegri heimferðin með sigur í síðasta leiknum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.