Uppskeruhátíðin
10.9.2008 | 18:28
Uppskeruhátíð vegna barna- og unglingastarfs Golfklúbbs Sauðárkróks var haldin s.l. sunnudag. Fjölmargir krakkar mættu á hátíðina. Byrjað var á því að allir fóru í púttkeppni og síðan var farið í vippkeppni. Í púttkeppninni sigruðu Arnar Geir og Elísabet en í vippkeppninni sigruðu Ingvi Þór og Aldís Ósk.
Síðan var farið í að veita viðurkenningar og verðlaun og stjórnuðu Óli þjálfari og Pétur því með miklum myndarskap. Allir fengu sérstakt viðurkenningarskjal ásamt gjöf sem að kemur örugglega til með að nýtast vel næsta sumar. Að því búnu fengu þeir 10 iðkendur sem að höfðu sýnt besta mætingu í sumar sérstaka viðurkenningu. Síðan voru veitt verðlaun til þeirra sem að sköruðu fram úr í sumar í sínum aldursflokkum.
Þá var slegið upp heljarinnar pizzuveislu fyrir allan hópinn - og líka þá foreldra sem að mættu.
Þegar allir voru orðnir mettir þá var komið að síðasta liðnum á uppskeruhátíðinni. Veittir voru farandbikarar fyrir Besta kylfinginn og Mestu framfarirnar fyrir aldurinn 13 ára og eldri. Í stelpnaflokki fékk Elísabet Ásmundsdóttir viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar og Sigríður Eygló Unnarsdóttir var útnefnd besti kylfingurinn. Í piltaflokki fékk Arnar Geir Hjartarson viðurkenningu fyrir mestar framfarir og Ingvi Þór Óskarsson var útnefndur besti kylfingurinn.
Að lokum þakkaði þjálfarinn, Ólafur Gylfason, fyrir sumarið sem var mjög ánægjulegt og ágætis árangur náðist á mörgum sviðum starfsins.
Milli 30 og 40 krakkar mættu á æfingar í sumar og er það von okkar að þau verði enn fleiri á næsta sumri.
Það er von okkar í barna-og unglingaráði að allir verði duglegir að æfa þó að formlegum æfingum sé nú lokið enda er völlurinn í fínu ástandi og verður vonandi svo fram eftir hausti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.