Uppskeruhátíðin var haldin 20. sept.
21.9.2009 | 21:47
Golfklúbbur Sauðárkróks hélt uppskeruhátíð vegna barna-og unglingastarfs sumarsins sunnudaginn 20. september s.l. á Hlíðarendavelli. Iðkendur sumarsins mættu kl.13 ásamt a.m.k. einu foreldri og var byrjað á því að spila saman þrjár holur með svokölluðu greensome fyrirkomulagi. Báðir aðilar slógu upphafshögg og síðan var betra upphafshöggið valið og iðkandi og foreldri slógu til skiptis eftir það. Fín stemming var og alls voru þetta í kringum 30 spilarar sem létu rigninguna ekkert á sig fá.
Í þessum létta leik voru það mæðginin Arnar Geir Hjartarson og Katrín Gylfadóttir sem að urðu hlutskörpust, þ.e. slógu fæst högg !
Síðan var komið að sjálfri uppskeruhátíðinni. Allir kylfingar fengu viðurkenningarskjal fyrir sumarið og gjöf. Þröstur Kárason og Jóhannes Friðrik Ingimundarson fengu verðlaun fyrir góðu ástundun og áhuga. Þá fékk Jónas Már Kristjánsson fékk sérstök jákvæðniverðlaun.
Þá var í fyrsta skipti veittur Hugarfarsbikarinn en þau fær sá kylfingur sem er til fyrirmyndar golfíþróttinni og golfklúbbnum bæði innan vallar sem utan. Þennan bikar hlaut Arnar Geir Hjartarson.
Því næst voru veitt verðlaun fyrir mestu framfarir sumarsins í stelpu- og strákaflokkum. Í stelpnaflokknum hlaut Matthildur Kemp Guðnadóttir þau verðlaun en í strákaflokknum var það Arnar Geir Hjartarson.
Þá var komið að því að veita verðlaun fyrir besta kylfing sumarsins. Í stelpnaflokki varð Helga Pétursdóttir fyrir valinu og í strákaflokknum varð það Ingvi Þór Óskarsson.
Að lokum þakkaði Pétur Friðjónsson formaður unglingaráðs öllum þeim fjölmörgu sem að komið hafa að starfinu í sumar fyrir gott starf, bæði Ólafi Gylfasyni sem var kennari hjá okkur í sumar og líka þeim fjölmörgu foreldrum sem að hjálpuðu til, hvort sem var við skipulagningu og aðstoð í mótum eða við fjáröflun s.s. kökubasar og kleinubakstur. Þá þakkaði hann einnig þeim fjölmörgu fyrirækjum sem að studdu svo dyggilega við bakið á okkur í sumar.
Það er ljóst að sumarið í ár var um margt eftirminnilegt. Við héldum Nýprent mótið okkar í byrjun júlí og hefur það aldrei verið fjölmennara. Unglingalandsmót var haldið í golfinu hjá okkur um verslunarmannahelgina og hefur aldrei verið meiri þátttaka í golfinu en á mótinu í sumar. Krakkarnir voru dugleg að mæta á mótin á Norðurlandsmótaröðinni, bæði á Dalvík, Ólafsfirði og á Akureyri og náðu þau mjög góðum árangri á þeim mótum og unnu til fjölda verðlauna. Við eignuðumst tvo Norðurlandsmeistara í þessari mótaröð, áttum sigurvegara á Unglingalandsmótinu ásamt fjölda annarra verðlauna þar einnig og svo mætti lengi telja.
Það fóru keppendur frá klúbbnum í íslandsmeistaramót í höggleik sem að haldið var í Hafnarfirði í júlí og náðu sér þar í dýrmæta reynslu.
Svo má náttúrulega ekki gleyma því að við sendum 2 ½ sveit í sveitakeppni unglinga. Vorum með strákasveit í sveitakeppni 16 ára á Kiðjabergi, stelpurnar í sama aldursflokki kepptu hins vegar á Flúðum. Þá vorum við með tvo af fjórum í sameiginlegri sveit stráka 17-18 ára sem að keppti einnig á Flúðum.
Í byrjun september fjölmenntum við síðan á Skagaströnd og héldum þar bændaglíma og var sú ferð mjög skemmtileg.
Langt og strangt sumar er því að baki en það er enn hægt að spila golf á Hlíðarenda og haustið búið að vera flott til golfiðkunar.
Síðan er bara að halda áfram að byggja sig upp líkamlega og viðhalda sveiflunni.
Stefnan er að reyna að fá einhverja inniaðstöðu þannig að við getum byrjað að sveifla aftur snemma á nýju ári.
Það eru komnar nýjar myndir frá uppskeruhátíðinni í myndaalbúmið
/hg
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir frábært sumar sem er Matthildi og okkur foreldrum hennar ógleymanlegt. Við höfum átt dásamlegar stundir með ykkur bæði á mótunum og utan þeirra. Sveitakeppnin á Flúðum stendur upp úr í okkar huga. Foreldraráðið hefur staðið sig með stakri prýði - þið eigið hól skilið.
Sjáumst að Hlíðarenda :)
Kristbjörg (IP-tala skráð) 22.9.2009 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.