Sveitakeppni stúlkna 18 ára og yngri

Copy of DSC00779Sveitakeppni stúlkna 18 ára og yngri 2011 – skýrsla liðsstjóra

Undanfarin tvö ár hefur GSS sent lið til keppni í sveitakeppni stúlkna. Árið 2009 var keppt á Flúðum og fengu stúlkurnar þá eldskírnina , þar sem ákveðið var að sameina keppni 18 ára og yngri og 15 ára og yngri og okkar stúlkur ungar og óreyndar í keppni. Þær stóðu sig samt með mikilli prýði. Árið 2010 var sent lið til Þorlákshafnar og keppt í flokki 15 ára og yngri. Þá náðist árangur framar vonum og endaði liðið í 5 sæti. Nú í ár var ákveðið að senda lið í flokk 18 ára og yngri, þar sem stúlkurnar voru aðeins fjórar og þar af ein orðin 16 ára. Vitað var að þetta yrði erfið keppni, þar sem nokkrir af sterkustu kvenkylfingum landsins kepptu í þessum flokki og gerðum við okkur ekki háar hugmyndir um sigra, en allar voru stúlkurnar ákveðnar í að gera sitt allra besta.

Um 10 manna hópur foreldra og stúlkna lagði af stað til Keflavíkur á Leiruna og var spilaður æfingahringur á fimmtudegi. Richard golfkennari fór með stúlkunum fyrri 9 holur vallarins en varð síðan frá að hverfa til Flúða, þar sem strákarnir kepptu. Hann kom síðan aftur og var með stelpunum á laugardeginum. Gist var á Vallarsvæðinu í Gistihúsi Keflavíkur og fór þokkalega um mannskapinn.

Alls mættu 5 lið til keppni. Tvö lið frá GK og GR voru langsterkust, en gerðum við okkur vonir um að geta náð hagstæðum úrslitum gegn hinum liðunum frá GKG og Nesklúbbnum. Stúlkurnar frá GSS voru þær Aldís Ósk Unnarsdóttir, Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir, Matthildur Kemp Guðnadóttir og Sigríður Eygló Unnarsdóttir. Sigríður var orðin 16 ára, Hekla og Aldís á 14. ári og Matthildur 13 ára.

Í fyrstu umferð snemma á föstudagsmorgni mætti sveit GSS liði Nesklúbbsins, en þær eiga greinilega við sömu erfiðleika að etja og okkar klúbbur, að vera með í sínum röðum fáar eldri stúlkur sem geta tekið þátt í svona keppni, svo sveitina skipuðu nokkrar ungar stúlkum með öðrum reyndari. Viðureignin var mjög spennandi. Þær systur, Sigríður og Aldís, kepptu einmenningsleikina en Hekla og Matthildur tvímenninginn, en til skýringar fyrir óinnvígða í golfíþróttina, þá er einn í hverju liði í tvímenningi en tveir í hverju liði í fjórmenningi, sem leika þó sama bolta til skiptis. Sigríður og Aldís náðu snemma þægilegri forystu og létu hana aldrei af hendi. Andstæðingur Sigríðar, sem er mjög góður kylfingur, var óheppinn og hitti glompur út um allan völl og Sigríður spilaði vel. Aldís sýndi enga miskun gegn andstæðingi sínum. Fjórmenningurinn var æsispennandi og tapaðist hann eftir harða baráttu á 18. holu. Frábær byrjun var því staðreynd, sigur 2-1 og höfðu foreldrarnir að orði að markmiðinu væri náð, að vinna leik í þessari erfiðu keppni.

Í annari umferð mættum við Íslandsmeisturunum í Golfklúbbi Reykjavíkur. Markmiðið var að hanga í þeim, vinna einhverjar holur og jafna einhverjar. Í sveitakeppni er uppstilling liða hálfgert lottó, því liðsstjórar vita ekki hvernig andstæðingurinn stillir upp sínu liði. Ákveðið var að öllu yrði snúið á haus. Matthildur og Hekla spiluðu einmenningsleikina en Sigríður og Aldís færu í fjórmenning. Vonin var að þar væri helst von til að ná punkti, en þrátt fyrir þessar tilfæringar voru GR stúlkur einfaldlega betri kylfingar en okkar stúlkur. Engu að síður léku okkar stelpur mjög vel. Matthildur lék t.d. gegn Sunnu Víðisdóttir sem er með ríflega 2 í forgjöf, en hún stóð sig samt eins og hetja og hékk í Sunnu lengi framanaf. Sama má segja um hinar stúlkurnar, en þrátt fyrir hetjulega barátttu varð niðurstaðan 3-0 tap.

Morguninn eftir mættum við liðið GKG. Með sigri hefði þriðja sætið í keppninni verið í augsýn, en lið Kópavogs og Garðabæjar var sterkt. Sigríður og Hekla voru í tvímenning en Aldís og Matthildur í fjórmenning. Líklega var þetta slakasti leikur okkar stúlkna, en liðsmenn GKG voru einnig að spila mjög gott golf, þær fengu fugla út um allan völl í byrjun leikjanna og náðu fljótlega þægilegri forystu og þrátt fyrir að okkar stelpur klóruðu í bakkann, var það ekki nóg og leikirnir töpuðust einn af öðrum.

Seinnipartinn var síðan leikinn síðasta viðureignin, gegn Golflkúbbnum Keili, sem var með gríðarsterkt lið með Íslandsmeistarann Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur í fararbroddi. Matthildur fékk það verkefni að kljást við hana, enda var liðinu stillt upp með það í huga. Matthildur spilaði frábært golf, fékk t.d. 3 pör á fyrstu fjórum holunum, en Guðrún Brá er ekki vön að vera mikið yfir pari golfvalla yfirleitt og spilaði á pari vallarins í leiknum. Matthildur hékk í henni, jafnaði margar holur, fékk fullt af pörum og einn fugl og hefur líklega aldrei spilað betur, en það dugði auðvitað ekki til sigurs. Sigríður spilaði hinn einmenningsleikinn og lék einnig afar vel. Hún var eina holu undir eftir 9 spilaðar og var nálægt pari, en þá tók andstæðingurinn uppá að hlaða niður fuglum og leikurinn kláraðist fljótlega. Í fjórmenningnum var það sama upp á teningnum, GK stúlkur spiluðu mjög vel og fengu par eða fugla á flestar holur. Allar stúlkurnar spiluðu glæsilegt golf, þó það nægði ekki til gegn þessu liði, sem reyndist, þegar upp var staðið vera ósigrað í keppninni og töpuðu engum leik.

Vegna fyrirkomulags keppninnar sat liðið hjá á sunnudegi og var því mótinu lokið fyrir GSS stúlkur á laugardagskvöldinu. Stelpurnar fóru í bíó og skemmtu sér vel. Niðurstaðan í mótinu varð fjórða sætið, sem er mjög góður árangur. Það sem meira er um vert voru allar stelpurnar að spila gott golf og betur en forgjöfin segir til um. Þær voru klúbbnum til sóma og skemmtu sér konunglega í blíðviðrinu í Leirunni þessa helgi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband