Bændaglíma á Skagaströnd

Það var glaðbeittur hópur sem að lagði af stað frá golfskálanum kl.10.  Var ferðinni heitið á Háagerðisvöll við Skagaströnd. Veðurguðirnir voru í sínu bestu skapi. Sólskin og ekki bærðist hár á höfði.

Við fengum góðar móttökur hjá vinum okkar á Skagaströnd.  Ákveðið var að slá upp bændaglímu og skipta í tvö lið. Bændur voru valdir, og fyrir valinu voru "aldursforsetarnir" þeir Ingvi Þór og Arnar Geir. En liðin voru þannig skipuð: Liðið hans Ingva ásamt honum voru: Elvar Ingi Hjartarson, Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir, Hlynur Freyr Einarsson, Björn Ingi Ólafsson og Viktor Kárason. Í liði Arnars Geirs voru ásamt honum: Þröstur Kárason, Atli Freyr Rafnsson, Jóhann Ulriksen, Hákon Ingi Rafnsson, Pálmi Þórsson og Maríanna Ulriksen. 

Síðan var farið á teig og raðað var niður í 3-4 manna holl. Spilaðar voru 9 holur nema þau yngstu spiluðu 6 holur.  Fjögur bestu skorin töldu í keppninni.  Eins og áður sagði lék veðrið við keppendur og spiluðum við þetta bara í rólegheitum. Nokkrir fullorðnir spiluðu einnig og höfðu ekki síður gaman af en ungviðið.

Keppninni var lokið um tvö leytið og þá var brunað í Kántrýbæ í pizzuhlaðborð sem að beið okkar þar. Þar voru tilkynnt úrslit í bændaglímunni sem urðu á þann veg að liðið hans Ingva sigraði nokkuð örugglega.  Allir voru orðnir svangir, bæðir ungir og fullorðnir og var vel tekið á pizzunum.  En þegar því lauk þá fóru allir út fyrir þar sem að stórskemmtilegur mini-golfvöllur er á flötinni fyrir utan. Þar var spilað um stund og greinilega var enginn búinn að fá nóg af golfinu.

Að þessu loknu héldu  sumir heim á leið en hinir fóru í smá útsýnisferð upp í Höfða við Skagaströnd þar sem að gott útsýni er til allra átta og útsýnisskífa.  Um stórskemmtilega gönguleið er að ræða og ekki spillti fyrir að allt var þarna krökkt af berjum.  Þetta var góður endir á flottum degi sem að tókst í alla staði mjög vel og skemmtu allir sér hið besta.  Við vorum síðan komin til baka á Krókinn um kl.17.  

Ég vil hvetja alla sem að ekki hafa spilað Háagerðisvöll við Skagaströnd að drífa í því sem allra fyrst því að þarna er sannarlega um perlu að ræða. Völlurinn er fjölbreyttur, fallegur og mjög vel hirtur.

20 manns fóru í þessa ferð og viljum við þakka þeim sem að fóru á bílum sínum og gerðu þessa ferð mögulega.

Myndir frá ferðinni koma síðan fljótlega á myndasíðuna

/hg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband